Um okkur

Í meira en 65 ár hefur flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) staðið vörð um réttindi og velferð flóttamanna um heim allan.

 

Starf okkar miðar að því að tryggja að allir njóti réttar til að leita hælis og finni öruggt skjól eftir að hafa flúið ofbeldi, ofsóknir, stríð eða hörmungar heima fyrir.

Frá 1950(🇬🇧) höfum við staðið andspænis margvíslegu hættuástandi víða um heiminn og veitt bráðnauðsynlega aðstoð til flóttamanna, hælisleitenda, fólks sem er vegalaust í eigin heimalandi og til ríkisfangslausra sem margir hafa engan lengur sem þeir geta leitað til.

Við tökum þátt í að bjarga lífi margra milljóna sem hafa hrakist að heiman. Við hjálpum þeim að búa sér betri framtíð.

 

UM FLÓTTAMANNASTOFNUN SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA Í NORÐUR-EVRÓPU

Starfsemi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Norður-Evrópu er í umsjá umdæmisskrifstofu fyrir Norður-Evrópu sem staðsett er í Stokkhólmi, Svíþjóð. Að auki er starfrækt tengiskrifstofa við umdæmisskrifstofuna í Vilníus, Litháen.

Starfsemi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Norður-Evrópu hófst árið 1985 með opnun umdæmisskrifstofu fyrir Norðurlöndin sem staðsett var í Stokkhólmi. Upphaflega bar skrifstofan ábyrgð á starfsemi Flóttamannastofnunarinnar í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð en síðar bættust við Eistland, Lettland og Litháen.

Meginhlutverk umdæmisskrifstofu Flóttamannastofnunarinnar í Norður-Evrópu eru:

  • Að styðja stjórnvöld við innleiðingu á evrópskum og alþjóðlegum lögum sem snúa að hælisleit og ríkisfangsleysi.
  • Að hafa eftirlit með því að hælisleitendur hafi aðgang að þeim löndum sem tilheyra svæðinu og geti sótt um vernd.
  • Að styðja við innlend stjórnvöld sem fara með mál hælisleitenda í því að þróa sanngjarna, skilvirka og vandaða málsmeðferð í slíkum málum.
  • Að ráðleggja stjórnvöldum, samstarfsaðilum og hagsmunaaðilum um hvernig hægt sé að hjálpa flóttamönnum að aðlagast samfélaginu í löndum á svæðinu.
  • Að stuðla að því að stjórnvöld finni lausnir fyrir ríkisfangslausa einstaklinga innan sinna landamæra.
  • Að tryggja að allir þeir einstaklingar sem Flóttamannastofnunin lætur sig varða njóti réttinda með hliðsjón af aldri, kyni og fjölbreytileika og að stjórnvöld, samstarfsaðilar og hagsmunaðilar á svæðinu hvetji til og auðveldi þátttöku þeirra er málin varða.
  • Að auka vitund um hlutskipti milljóna flóttamanna um heim allan og að fjalla um mál er varða flóttamenn og hælisleitendur.
  • Að stuðla að því að starfsemi Flóttamannastofnunarinnar um heim allan njóti bæði fjárhagslegs- og almenns stuðnings.