Nýtt tækifæri fyrir flóttafólk

Mikið af flóttafólki getur ekki snúið aftur heim til sín vegna yfirstandandi átaka, stríða eða ofsókna, og mörg þeirra búa við hættulegar aðstæður eða hafa sérstakar þarfir, sem þýðir að þau geta ekki fengið viðeigandi vernd í því landi sem þau hafa sótt um hæli í. Í stað þess þurfa þau endurbúsetu í öruggu, þriðja landi.

Norðurlöndin hafa lengi verið mikilvægur samstarfsaðili fyrir endurbúsetu – bæði hvað varðar endurbúsetu flóttafólks og stuðning við Flóttamannastofnunina og alþjóðlega endurbúsetukerfið.

Nokkur Norðurlönd hafa aukið við framlag sitt á síðustu árum, og skrifstofa Flóttamannastofnunarinnar fyrir Norðurlönd og Eystrasaltslönd vonast til að stuðningur við málstaðinn muni halda áfram þrátt fyrir núverandi stöðu heimsmála og vaxandi þörf.

Hvað er endurbúseta?

Endurbúseta er ómetanlegt verkfæri til að vernda líf, heilsu, frelsi eða grundvallarmannréttindi flóttafólks í landinu þar sem það hefur sótt um hæli. Endurbúsetuferlið felur í sér flutning flóttafólks frá sínu hælislandi til annars lands sem hefur samþykkt að taka á móti því og veita því endurbúsetu.

Flóttamannastofnunin aðstoðar við endurbúsetu flóttafólks, en ferlið er samvinnuverkefni. Það er einungis hægt að inna af hendi í nánu samstarfi við ýmsa aðila, sérstaklega endurbúsetulöndin sem ákveða sjálf endurbúsetukvóta og taka á móti flóttafólki, en einnig í gegnum önnur alþjóðleg samtök eins og Alþjóðlegu fólksflutningastofnunina (IOM) og borgaralegt samfélag.

UNHCR auðkennir og velur flóttafólk til endurbúsetu samkvæmt ákveðnum viðmiðum þegar lokið er við að skilgreina gjaldgengi þeirra fyrir alþjóðlega vernd. Lönd ákveða hverjum þau veita endurbúsetu og byggja valið á viðtölum og skjölum. Áður en flóttafólkið sem fyrir valinu verður fer frá hælislandinu undirgengst það yfirgripsmikið ferli, þar á meðal heilsufarsskoðun og öryggiseftirlit, sem og undirbúning fyrir nýja lífið í endurbúsetulandinu.

Af milljónum flóttafólks út um allan heim fær einungis eitt prósent þeirra endurbúsetu á ári. Það er mikil og stöðug þörf á fleiri endurbúsetuúrræðum. UNHCR er því alltaf að ýta á endurbúsetulönd að auka sinn kvóta og finna ný lönd til að taka þátt í endurbúsetuáætluninni.

 

Hvaða flóttafólk fær endurbúsetuúrræði?

Starfsemi UNHCR vegna aðstæðna flóttafólks út um allan heim finnur flóttafólk fyrir endurbúsetu í samræmi við viðurkenndar flokkanir. Þær taka mið af aukinni þörf á vernd, berskjölduðum hópum og sérstökum þörfum. Flóttafólk sem fær endurbúsetu er þar af leiðandi oft konur og stúlkur í hættu, þolendur ofbeldis og misþyrminga, börn í hættu og flóttafólk sem þarfnast lagalegrar, læknisfræðilegrar eða líkamlegrar verndar sem ekki er hægt að veita í núverandi hælislandi.

Áður en flóttafólk fær endurbúsetu hefur Flóttamannastofnunin skilgreint þarfir þeirra fyrir alþjóðlega vernd. Á hverju ári kortleggur Flóttamannastofnunin og tekur saman upplýsingar um endurbúsetuþörf á heimsvísu.

Þegar ákvarðanir um endurbúsetu eru teknar hvetur Flóttamannastofnunin öll lönd til að fá leiðbeiningar um alþjóðlega viðurkenndar flokkanir fyrir gjaldgengi, þörf á heimsvísu og forgangshópa. Flóttamannastofnunin biður um að endurbúsetuáætlanir landa einblíni fyrst og fremst á einstaklingsmiðaða verndarþörf, og að þær séu fjölbreyttar, stuðli að jöfnuði og séu sveigjanlegar.

 

Af hverju endurbúseta?

  • Endurbúseta er mikilvæg vernd til að mæta sérstökum þörfum flóttafólks hverra mannréttindi eru í hættu í landinu þar sem það sótti um hæli.
  • Endurbúseta veitir flóttafólki tækifæri á langtímalausn vegna nauðungarflutninga.
  • Með endurbúsetu deilir alþjóðasamfélagið ábyrgðinni vegna þess að í henni felst stuðningur við lönd sem hýsa fjölda flóttafólks.

Aldrei hafa verið fleiri vegalausir einstaklingar en nú og fjöldinn allur af átökum og langvarandi neyðarástandi hrekur fólk frá heimilum sínum með minnkandi líkum á að snúa aftur heim. Því verður endurbúseta sífellt mikilvægari við að vernda viðkvæmasta flóttafólk heims og veita þeim tækifæri til að búa sér betri framtíð.

Í dag bera lönd heimsins ekki jafna ábyrgð á að taka á móti flóttafólki og veita því hæli, þar sem meirihluti flóttafólks er veitt hæli í nágrannalöndum og yfirgnæfandi meirihluti í lágtekjulöndum.

Endurbúseta er örugg og skipuleg leið til að tryggja aukna sameiginlega ábyrgð og til að sýna samhug með löndum sem taka á móti flestu flóttafólki. Hún veitir einnig örugga og lagalega vernd og dregur úr hættu á áframhaldandi flutningum og óskrásettum, örvæntingarfullum ferðalögum.

 

Endurbúseta á Norðurlöndunum

Norðurlöndin hafa áratugum saman verið öflugir samstarfsaðilar Flóttamannastofnunarinnar hvað varðar endurbúsetu og hafa tekið á móti flóttafólki í gegnum það kerfi. Danmörk síðan 1979, Finnland síðan 1985, Ísland síðan 1995, Noregur síðan á níunda áratugnum og Svíþjóð síðan 1950. Undanfarin ár hafa mörg Norðurlandanna aukið kvóta sinn til að bregðast við alþjóðlegri neyð og sýnt með því sterka samstöðu með móttökulöndum. Mörg lönd á svæðinu styðja líka alþjóðaáætlun UNHCR um endurbúsetu, sem hjálpar við að byggja upp færni og þróa áætlunina.

Sjá einnig algengar spurningar um endurbúsetuHandbók UNHCR um endurbúsetu

„Ég hafði misst alla von um að líf mitt gæti verið öðruvísi“


Angelique Umugwaneza flúði Rúanda með fjölskyldu sinni á meðan á þjóðarmorðunum stóð og var á flótta í sjö ár. Hún gekk yfir allt Kongó áður en hún og systir hennar fengu endurbúsetu í Danmörku.

Eftir að hafa bara hugsað um að lifa af árum saman, veitti öryggið og róin í nýja landinu henni tækifæri til að byrja að láta sig dreyma og hugsa um framtíðina.

Í dag hefur Angelique nokkrar háskólagráður og hefur unnið að mannúðar- og þróunarstarfi í ýmsum löndum.

Lestu sögu hennar hér.

Rasmus Flindt Pedersen

Skýrslur og aðrar heimildir

Staðreyndir um endurbúsetu

Endurbúseta 2020 í stuttu máli: Tölfræði um umsóknir og brottfarir, algengustu upprunalönd, alþjóðlega vernd og endurbúsetu sem og upplýsingar um lýðfræði og flokka endurbúsetu. Hlekkur hér.

Þriggja ára áætlun

Þriggja ára áætlun UNHCR um endurbúsetu og aðrar leiðir (2019-2021) Hlekkur hér.

Upplýsingar um endurbúsetu

Tölulegar upplýsingar um endurbúsetu, þar á meðal upprunalönd, hælislönd og endurbúsetulönd. Upplýsingarnar eru uppfærðar mánaðarlega. Hlekkur hér.