Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin brugðust hratt við og veittu stuðning sem gerði Flóttamannastofnuninni kleift að veita bæði tafarlausa og langvarandi aðstoð við fólk sem flýr stríðið í Úkraínu.
Frá því að stríðið hófst í Úkraínu hafa yfir 7,1 milljón flóttamanna frá Úkraínu farið yfir landamærin inn í nágrannalöndin og sumir hafa haldið för sinni áfram til að leita skjóls í löndum víða um Evrópu. Um leið eru meira en 6,9 milljónir manna í Úkraínu vegalausar í eigin landi og standa frammi fyrir margvíslegum erfiðleikum, þar á meðal skorti á húsaskjóli, fæði, gistingu, grunninnviðum og aðgangi að atvinnu og menntun.
Skjót viðbrögð, stuðningur og fjárframlög Íslendinga, sem og annarra Norðurlanda- og Eystrasaltsþjóða, gerði Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna kleift að bregðast fljótt og látlaust við neyðarástandinu í Úkraínu og nærliggjandi löndum.
Nú þegar vetrarmánuðirnir nálgast þurfa hins vegar margir á brýnum og viðvarandi stuðningi að halda til að takast á við sívaxandi kuldann. Til dæmis er þörf á öruggum gististöðum, viðgerðum á skemmdum heimilum, hlýjum fatnaði og andlegum stuðningi.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur, ásamt öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna, sent 241 mannúðarsendingu til Úkraínu og þannig aðstoðað meira en 140.000 landsmenn á svæðunum sem verst hafa orðið úti. Ótryggar aðstæður gera þessar aðgerðir afar vandasamar.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna styður við miðstöðvarnar þar sem vegalausir Úkraínumenn leita sér skjóls og stuðnings. Við höfum búið til eða betrumbætt hátt í 100.000 svefnrými í á fjórða hundrað miðstöðva.
Meira en 535.000 vegalaust fólk í Úkraínu hefur fengið fjárhagsaðstoð frá Flóttamannastofnuninni. Fjárhagsaðstoð gerir flóttafólkinu kleift að forgangsraða og fullnægja þörfum sínum með reisn, auk þess sem hún örvar efnahaginn. Flóttamannastofnunin hefur einnig veitt um 397.000 úkraínskum flóttamönnum aðstoð í nágrannalöndunum Moldavíu, Rúmeníu, Slóvakíu og Póllandi. Fjárhagsaðstoðin er enn fremur öryggisnet á meðan fólk er í atvinnuleit eða bíður þess að fá aðgang að félagslegu kerfi.
Flóttamannastofnun og barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hafa sett á fót 34 miðstöðvar kenndar við Bláa punktinn í Moldóvu, Rúmeníu, Ungverjalandi, Slóvakíu, Póllandi, Búlgaríu og á Ítalíu. Bláu punktarnir veita öruggt rými fyrir flóttafólk í viðkvæmri stöðu, svo sem einstæður mæður, fylgdarlaus börn og hinsegin flóttafólk. Blái punkturinn býður upp á sérhæfða þjónustu svo sem upplýsingar, ráðgjöf, barnvæn rými, aðstoð við sameiningu fjölskyldna, ráðgjöf, sálfélagslegan stuðning, örugga svefnaðstöðu, neyðarþjónustu og vísun á sérfræðiþjónustu.
Í ágústlok hafði Flóttamannastofnunin aðstoðað hátt í 1,8 milljónir manna í Úkraínu. Aðstoðin hefur meðal annars falist í afhendingu á rúmlega 723.000 hlutum, jafnt matvælum sem öðru, svo sem teppum, borðbúnaði, dýnum, plastbrúsum og sólarknúnum ljósum, til vegalauss fólks víðsvegar í Úkraínu.
Sprengjuregn hefur skemmt mörg hús á svæðum þar sem hart hefur verið barist og Flóttamannastofnunin aðstoðar fólk með efni til að gera við þök, glugga, dyr og veggi. Í Donetsk og Lúhanska Oblast og í nágrenni Kænugarðs hefur Flóttamannastofnunin jafnframt útdeilt neyðarpökkum til þúsunda heimila.
Í upphafi átakanna hleypti Flóttamannastofnunin af stokkunum kynningarátaki um öryggismál á úkraínsku, ensku og rússnesku til að vara úkraínska flóttamenn við hættum og leiðbeina um öryggisatriði. Auk þess starfar sérþjálfað starfsfólk á vegum Flóttamannastofnunarinnar í Ungverjalandi, Moldóvu, Póllandi og Rúmeníu og þjálfar þar sjálfboðaliða til að starfa við vernd gegn misbeitingu og misnotkun, mansali og kynbundnu ofbeldi.
Á erfiðum tímum er nauðsynlegt að hafa aðgang að upplýsingum, lögfræðiráðgjöf og vísunum á rétta þjónustu. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur veitt hundruðum þúsunda flóttamanna frá Úkraínu upplýsingar og verndarþjónustu, þar á meðal sálfélagslegan stuðning. Við gerum það með starfsemi okkar á landamærastöðvum, samgöngu- og móttökumiðstöðvum og í hjálparsímanum okkar og hjálparsíðum á netinu.
Ísland sem stuðningsaðili
Það sem af er árinu 2022 hafa Íslendingar lagt til rúma 3,1 milljón Bandaríkjadala til Flóttamannastofnunarinnar, en af því runnu 788.563 Bandaríkjadalir til aðgerða í Úkraínu. 772.499 Bandaríkjadalir voru ekki eyrnamerktir. Árið 2021 lögðu Íslendingar til rúmlega 1,8 milljónir Bandaríkjadala, en þar af voru 26% ekki eyrnamerkt.
Deila á Facebook Deila á Twitter