Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og nauðarflutningar

Framlag Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna til heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og nauðarflutningar

Framlag Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna til heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun

Rúmlega 80 milljónir manna um allan heim hafa neyðst til að flýja heimili sín sökum átaka og ofsókna.

Ekki er gerlegt að ná þróunarmarkmiðunum í heimi sem mótast í síauknum mæli af loftslagsbreytingum, fátækt og átökum án þess að taka tillit til réttinda og þarfa flóttafólks, fólks sem er vegalaust í eigin landi og fólks án ríkisfangs. 

Grundvallarhugmyndirnar á bak við heimsmarkmiðin fyrir árið 2030, svo sem hugmyndin um að huga að öllum og tryggja mannréttindi allra, styðja jafnframt við hugmyndina um velferð án aðgreiningar.  

Svona notast Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna við hin ýmsu heimsmarkmið í starfi sínu:

Margt flóttafólk og fólk sem hefur sætt nauðungarflutningum býr við fátækt. 85% allra flóttamanna búa í þróunarlöndum, þar af þriðjungur í allra vanþróuðustu löndunum, þar sem sár fátækt er landlæg.  

Rannsókn í Líbanon frá 2021 sýndi til dæmis fram á að níu af tíu sýrlenskum flóttamönnum búa við sárafátækt. Og í Úganda, þar sem er fjölmennasta samfélag flóttafólks í Afríku eða um 1,5 milljónir, flest frá Suður-Súdan, leiddi könnun Flóttamannastofnunarinnar og Alþjóðabankans á félagslegum og hagrænum afleiðeingum COVID-19 í ljós að um helmingur flóttafólks í landinu býr undir fátæktarmörkum 

Í baráttunni gegn fátækt meðal flóttafólks og vegalauss fólks vinnur Flóttamannastofnunin að því að styrkja félagsverndarkerfi og víkka út svið þeirra svo þau taki til vegalauss fólks. Flóttamannastofnunin berst einnig fyrir því að flóttafólk hafi jafnan rétt til efnahagslegrar þátttöku og atvinnu til að tryggja lífsviðurværi sitt.   

Eitt dæmi um áþreifanlegt framtaksverkefni er Bandalagið gegn fátækt, sem er samstarfsverkefni Flóttamannastofnunarinnar, Alþjóðabankans og þrettán frjálsra félagasamtaka. Samfylkingin hefur sett sér það markmið að draga úr fátækt 500.000 heimila, bæði flóttamanna og gestgjafa þeirra, í 35 löndum innan 5 ára.

Mataróöryggi gerir fólk berskjaldað fyrir kynferðislegri misnotkun, ofbeldi og arðáðni, auk þess sem fæðuóöryggi getur verið á meðal orsaka þess að fólk leggur á flótta. Á árinu 2019 bjuggu 135 milljónir manna í 55 löndum og landsvæðum við alvarlegt fæðuóöryggi og um 80% alls fólks á flótta býr í löndum eða á landsvæðum þar sem vannæring og alvarlegt fæðuóöryggi er landlægt.   

Vegna vanfjármögnunar á hjálparstarfi þarf flóttafólk oft að þola að matarskammtar séu minnkaðir, sem skapar hættu á vannæringu, blóðleysi og röskunum á eðlilegum vexti barna. Árið 2021 fengu til dæmis 72% af tæplega fimm milljónum flóttafólks í Austur-Afríku og á Sómalíuskaga minni matarskarta vegna skorts á fjármögnun.   

Auk þess að veita flóttamönnum matarstuðning í samvinnu við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna og fleiri styður Flóttamannastofnunin ríkisstjórnir í baráttunni við vannæringu með fræðslu um næringu fyrir smábörn og ungbörn. Flóttamannastofnunin hvetur jafnframt samstarfsaðila og ríkisstjórnir til að taka tillit til flóttafólks í lýðheilsuáætlunum um næringarríkan mat.  

Flóttamannastofnun og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hafa til dæmis árum saman komið á fót fjölhæða matjurtagörðum í flóttamannabúðum í Kenía og Eþíópíu. Þessir garðar eru hluti af mataröryggisáætlun til þess að auka fjölbreytni í fæðu og stuðla að eigin framlagi flóttafólks til fæðuneyslu sinnar. 

Góð heilsa er grunnforsenda þess að flóttafólk geti byggt upp líf sitt á nýjan leik. Hins vegar hafa mörg ár eða jafnvel áratugir á flótta haft áhrif á heilsu og líðan fólksins sem neyðist til að flýja heimili sín og margt flóttafólk hefur takmarkað eða jafnvel ekkert aðgengi að heilbrigðisþjónustu, þar á meðal geðheilbrigðisþjónustu.   

Í Jemen, þar sem milljónir íbúa eru vegalausir í eigin landi, er til dæmis takmarkað aðgengi að heilbrigðisþjónustu, vatni og hreinlætisaðstöðu og 40.000 sómalskir flóttamenn í landinu eiga á hættu á að skorta alla grunnheilbrigðisþjónustu árið 2021.   

COVID-19 hefur einnig haft alvarleg áhrif á fólk sem er á flótta, vegalaust í eigin landi eða án ríkisfangs. Árið 2020 voru 41.401 smit og 401 dauðsfall af völdum COVID-19 meðal skjólstæðinga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Auk þess hefur heimsfaraldurinn sýnt fram á ójafnan aðgang fólks að heilbrigðisþjónustu.    

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna vinnur með stjórnvöldum og samstarfsaðilum sínum að því að veita neyðarheilbrigðisþjónustu og bæta staðbundna heilbrigðisþjónustu á staðnum, til dæmis með því að veita ráðgjöf, byggja upp innviði og auka afkastagetu, auk þess að styrkja rannsóknarstofur og útvega lyf, tækjabúnað og birgðir. Flóttamannastofnunin hvetur jafnframt til þess að flóttafólk sé hluti af heilbrigðiskerfi og heilbrigðisáætlunum hvers lands.  

Þótt Flóttamannastofnunin taki enn þátt í úthlutunaráætlun COVAX-verkefnisins, alþjóðlega átaksins til að tryggja bóluefni gegn COVID-19 handa þeim sem mest þurfa á því að halda, hefur stofnunin hvatt ríki til að taka tillit til fólks á flótta í viðbrögðum við COVID-19 til viðbótar við dreifingu bóluefna.  

Árið 2020 studdi Flóttamannastofnunin við aðgengi að alhliða grunnheilbrigðisþjónustu auk þess að gefa 16,5 milljónum flóttafólks í 50 löndum kost á vera vísað á annars og þriðja stigs umönnun. 

7,9 milljónir flóttafólks eru börn á skólaaldri (m.v. árslok 2020). Aðgengi þeirra að menntun er takmarkað og nær helmingur þeirra getur alls ekki sótt skóla. Á öllum námsstigum er hlutfall flóttafólks lægra en annarra. Eftir því sem börn á flótta eldast versnar ástandið ört og þau sem eru á framhaldsskólastigi eru í mestri hættu á að heltast úr lestinni.  

2019-2020 voru 68% barna á flótta skráð í grunnskólanám. Á framhaldsskólastigi var meðaltalið bara 34% og ekki nema 5% á háskólastigi.   

Auk þess benda ýmsir þættir til þess að gæði menntunar séu minni fyrir flóttafólk. Allt að 70 nemendur eru á hvern kennara, auk þess sem takast þarf á við önnur vandamál svo sem skort á menntuðum kennurum, kennslustofum og námsgögnum.  

Flóttamannastofnun starfar með ríkisstjórnum, alþjóðleglum stofnunum, frjálsum félagasamtökum og einkaaðilum til að tryggja góða menntun fyrir börn og unglinga á flótta. Lykilatriði er að taka flóttamenn inn í menntakerfi hvers lands í nánu samstarfi við þarlend stjórnvöld. Flóttamannastofnunin telur að það sé varanlegasti kosturinn.   

Eitt dæmi er samstarf Flóttamannastofnunarinnar við samtökin Educate a Child sem frá árinu 2012 hafa hjálpað meira en 1,2 milljónum barna sem eru á flótta eða vegalaus í eigin landi við að komast í grunnskóla og vinna gegn brotfalli úr skóla í löndum á borð við Sýrland, Rúanda og Suður-Súdan. 

Á sviði æðri menntunar hefur Flóttamannastofnunin gert metnaðarfulla áætlun ásamt samstarfsaðilum sínum, markmiðið um 15 fyrir 30, – það er að 15% ungmenna á flótta, eða um það bil 500.000 flóttamenn alls, fái aðgang að æðri menntun fyrir árið 2030. Eitt verkefni sem styður við þetta markmið eru svokallaðir DAFI-námsstyrkir Flóttamannastofnunarinnar, sem hafa verið veittir á nítjánda þúsund ungs flóttafólks til að stunda háskólanám frá árinu 1992.

Konur og stúlkur eru um helmingur alls fólks sem er á flótta, vegalaust í eigin landi eða án ríkisfangs. Mismununin og ójöfnuðurinn sem konur og stúlkur standa frammi fyrir í sumum samfélögum verða enn áþreifanlegri á tímum landflótta, auk þess sem nauðarflutningar geta gert til dæmis stúlkur sem ferðast einar, barnshafandi konur og konur sem sjá fyrir börnum enn berskjaldaðri en ella.   

Félagshagfræðileg áhrif heimsfaraldurs COVID-19 á samfélög fólks á flótta hafa aukið enn á þá sívaxandi hættu sem stafar af ofbeldi, misnotkun og kynferðislegri misneytingu, sem allt eru afleiðingar kynjamisréttis. Heimsfaraldurinn hefur einnig leitt til þess að fjöldi stúlkna á flótta hafa hætt í námi til að vinna eða ganga í hjónaband.   

Allt starf Flóttamannastofnunarinnar mótast af stefnu stofnunarinnar um aldur, kyn og fjölbreytileika og sérstökum skuldbindingum um að tryggja jafnrétti fyrir konur og stúlkur og gera heiminn öruggari fyrir þær. Einn áþreifanlegur þáttur er að tryggja að konur og stúlkur á flótta séu skráðar sérstaklega og fái eigin pappíra, sem er mikilvæg forsenda fyrir jafnrétti. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna heldur einnig utan um verkefni til að hjálpa konum að þróa leiðtogahæfileika sína, auðvelda stúlkum að mennta sig og tryggja að konur og stúlkur hafi aðgang að tækifærum.   

Eitt dæmi er frá Kamerún, þar sem Flóttamannastofnunin hefur unnið með fulltrúum frá ýmsum hópum flóttafólks í höfuðborginni Yaoundé, en konur voru í miklum minnihluta. Í samstarfi við stjórnvöld og frjáls félagasamtök efndi Flóttamannastofnunin til valdeflingarþjálfunar til að fræða konur um tækifærin sem þær hafa hafa til að gegna forystuhlutverki. Árangurinn af þessu var að kynjajafnvægi komst á í starfinu.   

Flóttamannastofnunin tekur þátt í margvíslegu starfi á alþjóðavettvangi á sviði kynja og kynferðisofbeldis, svo sem áætlun Sameinuðu þjóðanna gegn kynferðisofbeldi í stríðsátökum og samræmingarstarfshópi fastanefndar um vörn gegn kynferðislegri misneytingu og misnotkun. 

Aðgangur að vatni og hreinlætisaðstöðu er lykilþáttur í því að tryggja heilsu og vellíðan flóttafólks. Að öðrum kosti geta vatnsuppsprettur spillst og þegar ekki er kostur á hreinu vatni skapast hætta á sjúkdómum og sýkingum. Hins vegar hefur skortur á tilföngum, mannmergð og þrengsli alvarleg áhrif til hins verra.  

Jafnvel þótt viðmiðið í mannúðarstarfi sé ekki nema 20 vatnslítrar á dag fyrir hvern mann næst markmiðið ekki nema hjá 43% fólks í flóttamannabúðum. Til samanburðar má nefna að meðalvatnsnotkun Evrópubúa er 128 lítrar á dag. Til dæmis þurftu súdanskir flóttamenn í flóttamannabúðum í Austur-Chad að láta sér nægja 14 lítra af vatni á dag árið 2019.  

Flóttamannastofnunin vinnur að því að tryggja hreint vatn og hreinlætisaðstöðu, til dæmis með því að bora eftir vatni og byggja upp innviði til langs tíma, til dæmis með því að koma upp salernum fyrir flóttafólk og heimamenn á svæðum þar sem fólk í viðkvæmri stöðu heldur til.   

WASH– áætlanir Flóttamannastofnunarinnar (um vatn, hreinlæti og hollustuhætti) gilda jafnt í neyðartilfellum, stöðugu ástandi og langvarandi aðstæðum og nú hefur WASH-áætlunum verið hrint í framkvæmd í 26 löndum og í 162 flóttamannabúðum, til hagsbóta fyrir meira en 3,6 milljónir flóttafólks.

Eitt dæmi um bætta vatnsveitu er í Tongogara-búðunum í Simbabve, þar sem rúmlega 14.500 kongóskir flóttamenn búa. Hér hafa verið boraðar öflugar borholur og sólarorkuknúið lagnakerfi tryggir að vatn berist um allar búðirnar. 

Aðgangur að hreinni og sjálfbærri orku er grundvallarþörf. Takmarkaður aðgangur að orku hefur neikvæð áhrif á fólk sem býr við bágar aðstæður og einkum kunna konur og börn að vera í aukinni hættu. Þrátt fyrir það hefur farið fram mat sem sýnir að 97% þeirra sem dvelja í flóttamannabúðum hafa lítinn eða engan aðgang að rafmagni og minnst 80% reiða sig á eldivið til að elda mat og hita húsakynni sín.  

Aðgengi að áreiðanlegri og sjálfbærri raforku, þar á meðal fleiri klukkustundum í birtu, þýðir að flóttafólk getur unnið, stundað nám, rekið fyrirtæki, blandað geði við annað fólk og myndað tengsl, en allt þetta er til þess fallið að auka vellíðan og sjálfstæði. Með því að vera með hreinna eldsneyti til matreiðslu geta flóttamenn eytt minni tíma í að safna viði, sem getur verið hættulegt fyrir konur og stúlkur, og afstýrt heilsuleysi sem fylgir því að anda að sér reyk frá opnum eldi. 

Flóttamannastofnunin starfar með ýmsum samstarfsaðilum að því að finna lausnir til að veita hreinni orku til flóttafólks, til dæmis með því að stuðla að sjálfbærri orkunotkun heimila. Í Kutupalong-flóttamannabúðunum í Bangladess, þar sem yfir 800.000 Róhingja hafast við, hefur Flóttamannastofnunin dreift fljótandi jarðolíugasi til rúmlega 100.000 heimila til að tryggja örugga og heilbrigða orku fyrir matreiðslu.https://www.unhcr.org/5db16a4a4 Í Eþíópíu hafa svo Flóttamannastofnunin og IKEA-stofnunin stutt sólarorkusamvinnufélög sem veita bæði sómölsku flóttafólki og heimamönnum hreina orku á viðráðanlegu verði.  

Árið 2020 setti Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna af stað áskorunina um hreina orku, sem sameinaði einkageirann, ríkisstjórnir og stofnanir til að ná metnaðarfullu markmiði um að tryggja orku sem er á viðráðanlegu verði, áreiðanleg og sjálfbær til allra dvalarstaða fólks á flótta og heimafólks í nágrenninu fyrir árið 2030.

Í samningnum um réttarstöðu flóttamanna frá 1951 er kveðið skýrt á um rétt flóttafólks til aðgangs að vinnumarkaði. Þrátt fyrir það býr 70% flóttafólks í löndum þar sem réttur til atvinnuþátttöku er takmarkaður. Forsenda fyrir því að flóttafólk geti reist líf sitt við á nýjan leik er að þeim sé gert kleift að vinna fyrir sér á sómasamlegan hátt og taka þátt í atvinnulífinu.  

Á tímum átaka og neyðarástands missir margt flóttafólk lífsviðurværi sitt, sem hefur alvarleg áhrif á getu þess til að sjá fyrir sér og fjölskyldu sinni. Í Suður-Súdan eru til dæmis 1,6 milljónir vegalausar í eigin landi, án aðgangs að lífsviðurværi sínu, menntun og vernd. Í Marib í Jemen eru 85% fjölskyldna sem eru vegalausar í eigin landi ófærar um að greiða leigu reglulega vegna þeirra fáu kosta sem bjóðast til að afla sér lífsviðurværis.  

Flóttamannastofnun sameinuðu þjóðanna vinnur að því að bæta lífsskilyrði flóttafólks og gera því kleift að taka þátt í efnahagslífinu. Við tölum fyrir rétti þess til atvinnu og þátttöku í landsáætlunum og úrræðum á vinnumarkaði. Til að efla sjálfsbjargarviðleitni fólks sem hefur neyðst til að yfirgefa heimili sín og heimahaga hefur Flóttamannastofnunin greitt fyrir aðgangi að þjálfun og eflingu á færni.  

MADE51 er framtaksverkefni Flóttamannastofnunarinnar þar sem vörur sem flóttafólk framleiðir eru boðnar til sölu á alþjóðamarkaði. Þetta framtaksverkefni kemur flóttafólki í samband við félagsleg fyrirtæki til þess að hanna, framleiða og markaðssetja handverk á alþjóðavettvangi og vinna sér þannig inn kærkomnar tekjur.  

Þegar þeir hafa fengið tækifæri og réttindi til að vinna hafa flóttamenn í mörgum löndum stofnað eigin fyrirtæki og stutt þannig við bæði eigin fjölskyldu og atvinnulífið þar sem þeir búa.

Skortur á nettengingu, auk kostnaðarsamra tækja og takmarkaðra þjálfunarmöguleika, kemur í veg fyrir að stór hluti flóttafólks geti nýtt sér nýja tækni. Flóttamannastofnunin telur að flóttafólk og samfélögin sem taka á móti þeim hafi rétt á að tilheyra tengdu samfélagi. 

Flóttamannastofnunin hefur hleypt af stokkunum átaki um tengingu fyrir flóttafólk undir forystu nýsköpunarþjónustu stofnunarinnar. Átakið miðar að því að tryggja stafræna þátttöku og veita flóttafólki aðgang að tækni, sem gerir þeim kleift að búa að betri betri framtíð fyrir sig, fjölskyldu sína og heiminn allan. 

Flóttamannastofnunin vinnur með mörgum hagsmunaaðilum, þar á meðal í einkageiranum, til að tryggja betri tengingar fyrir flóttafólk og nýta tækni og nýstárlegar aðferðir við aðstæður þar sem þörf er á mannúðaraðstoð. Árið 2021 gerði stofnunin til dæmis samstarfssamning við Ericsson til að efla fjarskiptatengingar við neyðaraðstoð og frá árinu 2013 hafa Flóttamannastofnunin og Vodafone-stofnunin aukið aðgang flóttafólks að menntun og fjarskiptum með áætluninni Instant Network Schools í löndum á borð við Mósambík, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og Kenía.  

Þegar tækifæri gefst nýtir margt flóttafólk sér nýjustu tækni og nýsköpunartækni til að leysa vandamál og takast á við áskoranir. Eitt dæmi er frá Za‘atari-flóttamannabúðum í Jórdaníu. Hér hannaði sýrlenski flóttamaðurinn Marwan, sem lærði þjarkatækni í nýsköpunarsmiðju búðanna, þjark til að skammta sótthreinsiefni fyrir hendur og leggja þannig sitt af mörkum í baráttunni gegn COVID-19. 

Flóttafólk, fólk sem er vegalaust í eigin landi og fólk án ríkisfangs býr við stöðuga hættu á félagslegri, efnahagslegri og stjórnmálalegri útskúfun, og er þó þegar á meðal þess fólks í heiminum sem býr við hættulegustu og erfiðustu skilyrðin.  

Um allan heim búa margir minnihlutahópar og frumbyggjar við hættu á að lenda á jaðri samfélgasins og nauðungarflutningar auka enn á mismununina og ójafnréttið sem þeir glíma við. Þetta er til dæmis raunin hjá Awá Mayasquer-samfélagsinu í Kólumbíu, sem í áratugi hefur verið meðal þeirra milljóna íbúa landsins sem eru vegalausir í eigin landi.  

Annar viðkvæmur hópur er LGBTI+ flóttamenn sem hafa flúið ofsóknir ofbeldi og mannréttindabrot en þurfa oft að glíma áfram við útskúfun, mismunun og hótanir á flóttanum.  

Flóttamannastofnunin fylgir eigin stefnu um aldur, kyn og fjölbreytileika í starfi sínu að því að tryggja jöfn tækifæri og binda enda á mismunun með því að stuðla að félagslegri, efnahagslegri og pólitískri þátttöku allra, óháð aldri, kyni, kynhneigð, fötlun, kynþætti, þjóðerni, trúarbrögðum eða annarri stöðu. Um leið hvetur Flóttamannastofnunin ríki heims til að innleiða lög um fólksflutninga sem tryggja og styðja við þátttöku í samfélaginu. 

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna vinnur einnig með ríkisstjórnum og öðrum samstarfsaðilum að því að útrýma ríkisfangsleysi og tryggja að ríkisfangslausir einstaklingar njóti mannréttinda án mismununar, þrátt fyrir skort á ríkisborgararétti. Markmiðið með tíu ára #IBelong-herferðinni var að útrýma ríkisfangsleysi fyrir árið 2024.

Andstætt því sem almennt er talið býr meirihluti flóttafólks, eða um 60% (m.v. tölur frá 2019) ekki í flóttamannabúðum, heldur í borgum og þéttbýli, og því eru borgir helsti áfangastaður flestra hælisleitenda og flóttamanna. Flóttamannastofnunin vinnur að því að tryggja aðgang allra að fullnægjandi, öruggu og hagkvæmu húsnæði.  

Að mati Flóttamannastofnunarinnar er brýnt að flóttamenn taki þátt í samfélaginu sem tekur á móti þeim og fái tækifæri til að vera með, leggja sitt af mörkum og sjá fyrir sjálfum sér. Þetta krefst vinnu og skuldbindinga af hálfu flóttafólks en það er líka nauðsynlegt að taka vel á móti því og gefa því tækifæri og vettvang til að aðlagast og byggja upp líf sitt á nýjan leik. 

Flóttamannastofnunin talar fyrir borgum án aðgreiningar og vinnur að sjálfbærri aðlögun með félagslega samheldni og jöfn tækifæri að leiðarljósi, meðal annars með samstarfi við áætlun Evrópuráðsins um þvermenningarlegar borgir. Flóttamannastofnunin hefur einnig hleypt af stokkunum átakinu Cities #WithRefugees sem fjölmargar borgir víða um heim taka þátt í með því að skuldbunda sig til að taka vel á móti flóttafólki.  

Um allan heim styður flóttamannastofnunin, til dæmis með þátttöku sinni í alþjóðlega stuðningsátakinu fyrir flóttafólk, við áætlanir og tilraunaverkefni sem miða að því að efla stuðning innan samfélagsins. Þessi framtaksverkefni gera borgurum og samfélögum kleift að taka beinan þátt í móttöku og aðlögun flóttafólks – og árangurinn hefur verið góður í löndum á borð við Spán. Bretland og Kanada, þar sem meira en 300.000 flóttamenn hafa notið stuðnings einkaaðila allt frá árinu 1979.

Afleiðingar loftslagsvandans verða sífellt augljósari orsök hættulegra aðstæðna, ógna og átaka sem neyða fólk til að leggja á flótta. Nærri 9 af hverjum 10 flóttamönnum og 7 af 10 þeirra sem eru vegalausir í eigin landi eru frá löndum sem eru berskjölduð fyrir loftslagsbreytingum og skortir úrræði til að bregðast við þeim.  

Auk þess er fólk sem flust hefur nauðungarflutningum og gestgjafar þess í fremstu víglínu loftslagsvandans þar sem það býr á stöðum þar sem loftslagsbreytingar valda flóðum, þurrkum, eyðimerkurmyndun og öfgum í veðri, og auka þannig enn frekar á erfiðleikana. Þetta má til dæmis sjá í Sómalíu, Suður-Súdan og Bangladess. 

Með aðgerðastefnu í loftslagsmálum að leiðarljósi leitast Flóttamannastofnunin við að efla viðbrögðin og auka metnaðinn með því að veita lögfræðiaðstoð til að tryggja aukna vernd fyrir fólk sem hefur flust nauðungarflutningum af völdum loftslagsbreytinga, sporna gegn hnignun umhverfisins og efla viðbrögð við loftslagsbreytingum á stöðum þar sem fólk flýr heimili sín, og með því að takmarka eigin umhverfisspor.  

Eitt dæmi má sjá í Minawao-flóttamannabúðunum í Kamerún, þar sem Flóttamannastofnunin og samstarfsaðilar hennar hafa unnið að átaki til að snúa við skógeyðingu frá árinu 2018. Flóttafólk og gestgjafar þess hafa gróðursett 360.000 plöntur og grænkað þannig búðarnir og umhverfi þeirra.  

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvetur jafnframt til vitundarvakningar og breytinga með þátttöku í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi, svo sem aðgerðaáætluninni um fólksflutninga af völdum hamfara.

Meira en 84 milljónir manna um allan heim þurfa að yfirgefa heimili sín vegna átaka, ofbeldis og ofsókna (m.v. mitt ár 2021) og því er ljóst að milljónir fólks sem er á flótta eða vegalaust í eigin landi finnur átakanlega fyrir skorti á friði og réttlæti á degi hverjum.  

Eins og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur margsinnis bent á hefur misbrestur heimsbyggðarinnar við að koma á friði og binda enda á átök leitt til þess að tölur um landflótta hækka ár frá ári og sífellt færra flóttafólk og fólk sem er vegalaust í eigin landi á kost á að snúa aftur heim. Á árunum 2010-19 gátu aðeins 3,9 milljónir flóttafólks snúið sjálfviljugt aftur til heimkynna sinna samanborið við tæpar 10 milljónir og rúmar 15 milljónir á áratugunum tveimur þar á undan.  

Í lok árs 2020 bjó 76% alls flóttafólks við svokallað viðvarandi neyðarástand, alls 49 tilfelli flóttamannavanda sem einkennast af minnst fimm samfelldum árum á flótta. 

Réttlætisskorturinn er líka beintengdur við alþjóðlega vandamálið ríkisfangsleysi: Milljónum manna um heim allan er neitað um ríkisfang vegna gloppna eða mismununar í lögum um ríkisfang. Sökum ríkisfangsleysi þeirra njóta þeir oft ekki grunnþjónustu og -réttinda, til dæmis að geta gengið í skóla, leitað til læknis, opnað bankareikning eða keypt hús.  

Með #IBelong-herferðinni og alþjóðlegri aðgerðaáætlun vinnur Flóttamannastofnunin með ríkisstjórnum og samstarfsaðilum að því að binda enda á ríkisfangsleysi fyrir árið 2024. Þessi vinna felur m.a. í sér að hvetja til þess að allt fólk njóti lagalegs réttar, þar á meðal skráningu við fæðingu, lagabreytinga til að koma í veg fyrir að fleira fólk sé án ríkisfangs og tryggingu á því að fólk án ríkisfangs eigi kost á að öðlast ríkisborgararétt, auk betri auðkenningar á samfélögum fólks án ríkisfangs.  

Mikill árangur hefur náðst, til dæmis í Kirgistan sem árið 2019 varð fyrst landa til að útrýma algjörlega ríkisfangsleysi innan landamæra sinna, og á Fílabeinsströndinni, sem var fyrsta Afríkulandið sem innleiddi verklag til að bera kennsl á og vernda fólk án ríkisfangs

Þar sem nauðungarflutningar á heimsvísu aukast ár frá ári hefur þörfin fyrir að sameina krafta til að hjálpa, vernda og finna lausnir fyrir flóttafólk heimsins aldrei verið brýnni. 

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna vinnur með  yfir 900 samstarfsaðilum um allan heim, allt frá ríkisstjórnum og alþjóðastofnunum til frjálsra félagasamtaka, grasrótarsamtaka og samtaka flóttafólks. Áherslan á aukið samstarf er greinileg í alþjóðlega samningnum um flóttafólk, sem var samþykktur árið 2018 og þar sem kallað er eftir þversamfélagslegri nálgun í móttöku flóttafólks, þar á meðal í einkageiranum, háskólasamfélaginu, borgaralegu samfélagi og meðal flóttafólksins sjálfs.  

Þetta varð að veruleika á fyrstu alþjóðlegu flóttamannaráðstefnunni árið 2019, þar sem á fjórða þúsund þátttakenda kom saman og samþykkti meira en 1400 skuldbindingar til að uppfylla markmið alþjóðlega sáttmálans um flóttafólk.  

Á meðal gamalreyndra samstarfsaðila Flóttamannastofnunarinnar er Microsoft: Allt frá árinu 1999 hafa þau unnið saman að því að kenna þúsundum ungra flóttamanna stafræna tækni og tölvunarfræði í Kakuma-búðunum í Kenía. Annar samstarfsaðili Flóttamannastofnunarinnar er smásölufyrirtækið Uniqlo, sem hefur, frá árinu 2006, gefið flóttafólki í meira en 48 löndum rúmlega 35 milljónir flíka, auk þess að veita þúsundum flóttafólks starfsþjálfun og atvinnumöguleika um gjörvalla Asíu.

Tekið tillit til nauðungarflutninga í sjálfbærnimarkmiðunum: nýr mælikvarði fyrir flóttafólk

 

Árið 2019 var mikilvægt skref stigið til að tryggja að fólk sem flust hefur nauðungarflutningum gleymist ekki – og að ekki sé litið fram hjá því í alþjóðlegu eftirliti með framgangi heimsmarkmiðanna. 

Með sérstökum mælikvarða fyrir flóttafólk í vísbendiramma sjálfbærnimarkmiðanna er stuðlað að áherslu og mati á stöðu flóttafólks og annars fólks sem flust hefur nauðungarflutningum. 

Frekari upplýsingar.