Megintilgangur Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna er að standa vörð um réttindi og velferð fólks sem hefur verið neytt á flótta. Í samstarfi við aðila eins og stjórnvöld, yfirvöld, félagasamtök og bæjarfélög vinnum við að því að tryggja öllum rétt til að sækja um hæli og komast á öruggan stað í öðru landi. Við leitumst einnig við að finna varanlegar lausnir.  

Um áratugi hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna aðstoðað milljónir einstaklinga við að hefja nýtt líf. Þar á meðal er flóttafólk, fólk sem snýr aftur heim, ríkisfangslausir einstaklingar, vegalausir innan eigin lands og hælisleitendur. Sú vernd, skjól, heilbrigðisþjónusta og menntun sem við veitum hefur reynst nauðsynlegt til að takast á við erfiða fortíð og hefja nýtt líf.

Flóttafólk

Flóttafólk er fólk sem flýr stríð, átök, ofbeldi, ofsóknir eða mannréttindabrot. Skilgreining og vernd flóttafólks er hluti af alþjóðlegum lögum og ekki má reka það burt eða senda aftur í aðstæður þar sem líf þess og frelsi er í hættu.
Vernd flóttafólks felur í sér öryggi fyrir því að vera sent aftur í hættu, aðgang að sanngjörnu og skilvirku ferli til að sækja um hæli og leiðir til að tryggja að grundvallarmannréttindi þeirra séu virt á meðan leitað er að langtímalausn.

Vegalaust fólk innan eigin lands

Vegalaust fólk innan eigin lands hefur einnig neyðst til að flýja heimili sín vegna ofbeldis, átaka og ofsókna, en hefur ekki farið yfir landamæri til að leita öryggis. Ólíkt flóttafólki eru þessir einstaklingar á flótta innan eigin lands.

Vegalausir innan eigin lands eru á ábyrgð yfirvalda í eigin landi, jafnvel þó að yfirvöldin séu ástæða nauðungarflutninganna. Oft flytja þessir einstaklingar á svæði sem erfitt er að ná til með mannúðaraðstoð og er þessi hópur því á meðal þeirra berskjölduðustu í heimi.

Hælisleitendur

Hælisleitandi er einstaklingur sem bíður þess að unnið sé úr beiðni um alþjóðlega vernd. Landskerfi fyrir hælisleitendur eru sett á stofn titil að ákvarða hverjir eiga rétt á alþjóðlegri vernd og hljóta stöðu flóttafólks. Þegar um er að ræða mikinn fjölda flóttafólks, oftast í kjölfar átaka eða ofbeldis, er ekki alltaf mögulegt eða nauðsynlegt að taka viðtöl við hvern og einn hælisleitanda sem fer yfir landamæri. Þessir hópar eru gjarnan kallaðir „prima facie“ flóttafólk.

Það er aldrei glæpur að sækja um hæli, heldur grundvallarmannréttindi.

Fólk án ríkisfangs

Fólk sem ekki hefur ríkisfang er ekki viðurkennt sem borgarar í neinu landi. Þetta þýðir að þau geti átt erfitt með að njóta mannréttinda sinna eða fá aðgang að grunnþjónustu. Sumir einstaklingar eru fæddir án ríkisfangs og aðrir komast í þá stöðu síðar – en óháð ástæðunni er fólk án ríkisfangs oft jaðarsett og beitt útilokun. Lestu meira um ríkisfangsleysi hér.