Loforð um störf og menntun fyrir flóttamenn á sögulegri ráðstefnu

Hnattrænni ráðstefnu um flóttamenn, þeirri fyrstu sinnar tegundar, lauk með rúmlega 770 loforðum um að bæta tækifæri fyrir flóttamenn og gistilönd þeirra.

Sögulegri ráðstefnu lauk í dag í Genf með fjölbreyttum skuldbindingum til að aðstoða milljónir flóttamanna og þau samfélög sem þeir dvelja í um allan heim, þ.á.m. mikilvæg loforð um nýja langtímaaðstoð til betri aðlögunar.

„Ég vil hrósa þeim verkefnum sem mörg lönd hafa lofað — bæði styrktaraðilar og gistilönd — og einnig leiðtogar í viðskiptaheiminum, borgarasamfélög og flóttamenn sjálfir, til að margfalda verkefni sem styðja við betri aðlögun flóttamanna, sjálfstraust og lausnir,“ sagði Filippo Grandi, flóttamannafulltrúi SÞ, við lokaathöfn fyrstu Hnattrænnu ráðstefnunnar um flóttamenn

„Orkan og stefnufestan sem hefur ómað síðustu þrjá daga er vitnisburður um að þrátt fyrir erfitt alþjóðlegt umhverfi er til staðar sameiginleg skuldbinding um að vernda þá sem flýja heimili sín í leit að skjóli.“

Ráðstefnan var haldin í Genf á sama tíma og 70,8 milljón manns eru á vergangi um allan heim, þar á meðal 25,9 milljón flóttamenn. Tilgangur hennar var að bregðast við þeim milljónum sem hafa flúið stríð og ofsóknir, og eins við þeim samfélögum sem veita þeim skjól – sem er aðallega í þróunarlöndunum.

Við lok ráðstefnunnar á miðvikudagskvöld höfðu þjóðarleiðtogar, leiðtogar SÞ, alþjóðlegar stofnanir, framfarastofnanir, leiðtogar úr viðskiptaheiminum og fulltrúar borgarasamfélaga meðal 3.000 þátttakenda heitið yfir 770 skuldbindingum.

„Hér er árangur í smíðum. Það er skylda okkar að láta þetta ganga upp.“

Loforðin voru um störf, skólapláss fyrir börn flóttamanna, nýjar stefnur stjórnvalda, lausnir eins og búsetukjör, hreina orku, innviði og betri stuðning til gistisamfélaga og -landa. Frekari loforð eru væntanleg.

Alþjóðabankastofnanirnar tilkynntu þróunarframlag upp á 2,2 milljarða Bandaríkjadali til flóttamanna og gistisamfélaga, og eins aðskilin framlög til að veita innspýtingu í einkageira og til sköpunar starfa.

Svipuð tilkynning kom frá Þróunarbanka Ameríkuríkja að upphæð einum milljarði Bandaríkjadala. Að auki lofuðu fjölmörg ríki, fyrirtæki og aðrir hagsmunaaðilar fjárhagsstuðningi til flóttamanna og gistisamfélaga þeirra að upphæð rúmlega tveggja milljarða Bandaríkjadala.

Tilgangurinn er að auka stuðning til betri aðlögunar og langtímaþróunarþarfar í gistisamfélögum – sem er viðurkenning á því að meirihluti flóttamanna er mörg ár eða jafnvel áratugi í útlegð.

Loforð að upphæð rúmlega 250 milljón Bandaríkjadala undirstrika vaxandi hlutverk einkageirans í að koma mikilvægum aðföngum til stuðnings milljóna flóttamanna um allan heim. A.m.k. 15 þúsund störf verða aðgengileg flóttamönnum í gegnum þessi framtök. Einnig verða um 125 þúsund klukkustundir af lögfræðiráðgjöf unnar í sjálfboðavinnu.

Grandi hvatti alla þátttakendur til að halda skriðþunganum gangandi og standa við loforð sín. „Hér er árangur í smíðum. Það er skylda okkar að láta þetta ganga upp,“ sagði hann.

Ráðstefnan gegnir lykilhlutverki í hnattræmu samkomulagi um flóttamenn, rammaáætlun fyrir fyrirsjáanlega og réttsýna ábyrgðarhlutdeild, sem lýst var yfir af allsherjarþingi SÞ fyrir ári síðan.

Forsætisráðherra Sómalíu, Hassan Ali Khayre, deildi persónulegri reynslu sinni sem flóttamaður og talaði þannig fyrir þörfum þeirra sem flúið hafa stríð, og mikilvægi þess að skapa aðstæður sem leyfa þeim að snúa aftur heim.

„Við verðum að einbeita okkur að því að takast á við frumorsakir og hvatir umrótsins.“

„Við verðum að einbeita okkur að því að takast á við frumorsakir og hvatir umrótsins,“ sagði hann á ráðstefnunni. „Í þessu sambandi verðum við að fjárfesta duglega í að bæta gott stjórnskipulag, öryggisgeirann, efnahagslega endurreisn og félagsþjónustu, sem eru grunnatriði fyrir frið og stöðugleika,“ sagði hann.

Þátttaka flóttamanna var hvarvetna í forgrunni. Um 80 manns frá Afríku, Ameríkunum, Asíu og Miðausturlöndum, tóku þátt í pallborðum og viðburðum sem fjölluðu meðal annars um menntun, endurnýjanlega orku og íþróttir, og lífsviðurværi og geðheilbrigði.

„Ef við horfum fram á veginn er ljóst að við getum áorkað miklu þegar við störfum saman sem jafningjar,“ sagði Tina Dixson, meðflutningsmaður flóttamanna, við lokaathöfn ráðstefnunnar, en hún sótti um hæli í Ástralíu árið 2012 sem baráttuaðili fyrir réttindum hinsegin fólks.

„Við biðjum ykkur öll – okkur öll – um að tryggja að næstu skref verði tekin til greina og að byggt verði á merkingarbæran hátt á þeim loforðum og framlögum sem sett voru,“ sagði Dixson.

„Ef við horfum fram á veginn er ljóst að við getum áorkað miklu þegar við störfum saman, og sem jafningjar.“

Wenasa Alaraba, frá sendinefnd flóttamannanema, uppskar fagnaðarlæti þegar hún kallaði eftir meiri fjárfestingu í menntun fyrir flóttamenn, sem standa frammi fyrir dvínandi möguleikum þegar þeir fara í gegnum menntakerfið.

„Menntun umbreytir fólki og það er í gegnum þá umbreytingu sem við öðlumst kunnáttu og þekkingu, við aukum möguleika okkar og finnum leið okkar að sjálftrausti,“ sagði hún. „Menntun gerir okkur mögulegt að ekki einungis lifa af, heldur líka blómstra.“

Á ráðstefnunni var einblínt á sex lykilsvæði: fyrirkomulag á byrði og skiptingu ábyrgðar, menntun, störf og lífsviðurværi, orku og innviði; lausnir og verndargetu.

En það var ekki aðeins rætt um stefnur. Hinn ástsæli Greipur úr Prúðuleikurunum kætti viðstadda þegar hann tók viðtal við þátttakendur, flóttamenn og ráðherra, viðskiptaleiðtoga og ráðamenn hjá SÞ.

Flóttamaður sem er hnefaleikari og dreymir um að keppa á Ólympíuleikunum í Tókýó 2020 sýndi skuggahnefaleika í Palais des Nations, á meðan aðrir spiluðu fótbolta fyrir utan.

„Þegar flóttamenn eru valdefldir,“ sagði flóttamaðurinn Foni Joyce Vuni og fangaði þannig bjartsýnisstemningu ráðstefnunnar, „breyta þeir ekki aðeins landinu sem þeir sækja um hæli í, heldur líka upprunalöndum sínum.“

Hægt er að sjá lista yfir öll loforð sem gerð voru hér.