Neyðarástand í Venesúela

Ekkert lát er á flótta fólks frá Venesúela vegna ofbeldis, óöryggis og ógnana sem og skorts á matvælum, lyfjum og nauðsynlegri þjónustu. Yfir 4 milljónir einstaklinga frá Venesúela búa nú erlendis, flestir í öðrum löndum Rómönsku Ameríku eða í Karíbahafinu, og eru þetta mestu fólksflutningar seinni tíma í sögu landsins.

Þróun mála á sviði stjórnmála og mannréttinda, sem og félagslegt og hagrænt ástand hefur þvingað vaxandi fjölda barna, kvenna og karla til að fara til nágrannalanda eða enn lengra. Margir koma þangað hræddir, þreyttir og í sárri þörf fyrir aðstoð.

Yfir 4 milljónir flóttamanna og farandfólks frá Venesúela um allan heim (tölur frá stjórnvöldum)

464.229 hælisleitendur frá Venesúela um allan heim (tölur frá stjórnvöldum)

Um 1,8 milljónir sem hafa annars konar löglega dvöl í Ameríkuríkjum (tölur frá stjórnvöldum)

Frekari upplýsingar um Venesúela úr gagnagátt UNHCR

Ástandið í Venesúela

Áður fyrr hýsti Venesúela þúsundir flóttamanna af svæðinu og annars staðar úr heiminum. Nú fer fjöldi þeirra sem neyðast til að yfirgefa heimili sín í Venesúela sífellt vaxandi og umtalsverður fjöldi þeirra þarf á alþjóðlegri vernd að halda. Alls hafa um 4 milljónir einstaklinga frá Venesúela yfirgefið land sitt til dagsins í dag, samkvæmt upplýsingum frá þeim stjórnvöldum sem taka á móti þeim, sem gerir þetta að einum stærsta nýlega flóttamannavanda veraldar.

Það hefur verið meira en 8.000% aukning á fjölda Venesúelabúa sem óska eftir alþjóðlegri vernd síðan 2014, aðallega í Ameríkuríkjum.

Margir Venesúelabúar sem myndu uppfylla skilyrðin eru ekki skráðir sem umsækjendur um alþjóðlega vernd en velja fremur aðrar löglegar leiðir til að fá dvalarleyfi, sem eru auðveldari og fljótlegri og veita aðgang að vinnu, menntun og félagslegri þjónustu.

Samt sem áður eru hundruð þúsunda Venesúelabúa án nokkurra skilríkja eða leyfa til löglegrar dvalar í nágrannaríkjum og þar af leiðandi án öruggs aðgengis að grundvallar réttindum. Það gerir þá sérstaklega viðkvæma fyrir kynferðislegri og vinnulegri misnotkun, mansali, ofbeldi, mismunun og útlendingahatri.

Meirihluti flóttamanna og farandfólks frá Venesúela sem kemur til nágrannalanda eru fjölskyldur með börn, barnshafandi konur, eldra fólk og fatlaðir. Þar sem þau neyðast oft til að fara óopinberar leiðir til að komast í skjól geta þau lent í höndum smyglara, mansalshópa eða vopnaðra hópa. Þar sem sífellt fleiri fjölskyldur koma með sífellt minni bjargráð, eru þær í knýjandi þörf fyrir skilríki, vernd, skjól, mat og lyf.

Móttökulönd og -samfélög í Argentínu, Brasilíu, Síle, Kólumbíu, Kosta Ríka, Ekvador, Mexíkó, Panama, Perú og suðurhluta Karíbahafsins hafa tekið á móti þeim af miklu örlæti en ástandið er orðið mjög íþyngjandi og nálgast mettun.

 

„Við gengum í 11 daga og þurftum að sofa úti. Við fórum því þeir hótuðu að drepa okkur. Bróðir minn var drepinn… Þeir drápu mig næstum því.“

– Ana, kona frá Venesúela í Ekvador

 

Hvað gerir Flóttamannastofnun SÞ til að hjálpa?

UNHCR hefur aukið viðbragð sitt á öllu svæðinu og vinnur náið með stjórnvöldum og samstarfsaðilum í móttökulöndum, sérstaklega IOM, til að styðja við samhæfð og heildræn viðbrögð við þörfum flóttamanna og farandfólks frá Venesúela.

Við höfum eflt viðveru okkar meðfram helstu landamærum til að draga úr mögulegri hættu, sérstaklega hvað varðar aðgengi að svæðum, mansal, misnotkun og til að finna fólk sem þarf á tiltekinni vernd eða þjónustu að halda, svo sem fylgdarlaus börn eða sem hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar og barnshafandi konur. UNHCR veitir líka stuðning og lögfræðiráðgjöf við komu og dreifir drykkjarvatni og hreinlætisvörum til kvenna og barna á landamærasvæðum. Teymin okkar veita líka fjárhagsaðstoð til allra viðkvæmustu einstaklinga frá Venesúela.

UNHCR styður líka tilraunir til skráninga af hálfu stjórnvalda í Aruba, Brasilíu, Kólumbíu, Kurasao, Ekvador, Gvæana, Perú og Trínidad og Tóbagó. Í Perú hefur umsóknum um alþjóðlega vernd frá Venesúelabúum meira en fimmfaldast, úr 33.100 árið 2017 í 190.500 árið 2018. Í Brasilíu hafa 61.600 umsóknir um alþjóðlega vernd borist, samanborið við 17.900 árið 2017.

UNHCR styður aðgerðir stjórnvalda á öllu svæðinu til að bjóða fram skjól fyrir Venesúelabúa sem koma til landamærahéraða og helstu borga. Í Brasilíu útvegum við skipulag fyrir svæði, tjöld, hjálpargögn, drykkjarbrunna, skráningu byggða á lífkennum, við virkjum einnig nærsamfélagið, dreifum upplýsingum og stjórnum svæðum. Til þessa hafa 13 tímabundin skýli verið opnuð í Boa Vista og Pacaraima, sem hýsa ríflega 6.000 Venesúelabúa. Í Maicao í Kólumbíu var tímabundin móttökustöð opnuð í mars 2019, sem sett var upp að beiðni lands- og héraðsyfirvalda, sem getur hýst 350 einstaklinga til að byrja með. UNHCR hefur líka sett upp barnvæn rými og rými fyrir brjóstagjöf við landamærastöðvar.

 

„Það tók okkur meira en sjö daga að komast til Perú. Við áttum ekkert að borða undir lokin. Við reyndum að spara allt fyrir son okkar, en hann var líka matarlaus í 24 tíma. Hann er bara þriggja ára.“

– Gerardo, faðir frá Venesúela í Perú

 

Skýrslur og tenglar (á ensku):