Enginn ætti að þurfa að hætta lífi sínu til að vera með fjölskyldu sinni

Þegar lífi Manal var ógnað tók hún ákvörðun sem engin móðir ætti að þurfa að taka: flýja í öryggið í Danmörku en skilja börnin eftir.

Manal að bíða eftir niðurstöðu hælisumsóknar sinnar í Danmörku. © UNHCR/Magic Hour Films

Í eldhúsinu í Kaupmannahöfn eru Manal og börnin hennar þrjú glöð yfir að vera saman. Manal hefur fengið pólitískt hæli og börnin hennar tímabundna vernd í Danmörku, sem þýðir að þau geta loks búið saman. En þegar þau segja frá því sem þau þurftu að ganga í gegnum til að komast á þennan stað breytist andrúmsloftið. „Ég veit ekki einu sinni hvort það er gott fyrir mig að muna, eða ekki,“ segir Manal. „Ég finn fyrir því í líkamanum.“

Manal var að vinna í dómsmálaráðuneyti Sýrlands þegar átökin í landinu bárust óþægilega nálægt. Hún átti fárra kosta völ og tók ákvörðun sem engin móðir ætti að þurfa að taka: hún flúði til að bjarga lífi sínu en skildi börnin sín þrjú eftir.

Heimili Manal var eyðilagt með sprengjum og skotum þegar átökin hörðnuðu. Þegar henni barst bein hótun frá uppreisnarmanni og dómari var drepinn gerði hún sér ljóst að líf hennar var í hættu. Það var of lítill tími og peningar til að skipuleggja ferðina fyrir þau öll fjögur, svo hún ákvað að fara ein í þeirri trú að börnin kæmu strax á eftir henni. Það leið rúmt ár þar til að hún sá þau aftur.

Manal komst í öruggt skjól í Danmörku í desember 2014, en áhyggjum hennar var langt í frá lokið. Hún komst að því að hún yrði að bíða í þrjú ár til að öðlast rétt á að fá fjölskylduna til sín. Það þýddi þrjú ár enn af áhyggjum af börnunum í Sýrlandi og þeim möguleika að þau legðu sjálf í hættuförina til Evrópu.

„Það vill enginn vera án barnanna sinna.“

„Ég átti mér eina ósk,“ sagði hún. „Að sjá börnin mín. Ég gat aldrei hugsað mér að lifa án þeirra. Enginn vill vera án barnanna sinna.“

Full örvæntingar snéri Manal sér til smyglara til að koma fjölskyldunni sem fyrst til Danmerkur.

Ferðalag þeirra hófst í október 2015 þegar Sarah, elsta dóttir Manal, skrifaði að þau hefðu fundið einhvern til að koma þeim yfir landamærin inn í Tyrkland og þaðan með báti til Grikklands. Manal var spennt þegar Sarah skrifaði að þau hefðu loksins komist niður að ströndinni og myndu fara um borð í bátinn í dögun.

Eftir það heyrði Manal ekkert. Hún fór í háttinn og óttaðist hið versta og vaknaði upp við fréttir um að bátur á leið til Lesbos frá Tyrklandi hefði bilað. Margir þeirra sem voru um borð hefðu farið í sjóinn. Það var báturinn sem hún vissi að börnin hennar væru á.

Veröld Manal hrundi meðan fréttamenn töluðu um fjölda karla, kvenna og barna sem hefðu drukknað. Alein í hælismiðstöðinni, miður sín af sektarkennd, hnipraði hún sig saman, skjálfandi og ófær um að hreyfa sig.

„Hver er tilgangur lífsins ef börnin manns hafa dáið?“

Á fjórða degi fann Manal mynd af drukknuðum dreng sem leit alveg eins út og átta ára sonur hennar Karam. Hann var með sömu brúnu krullurnar, sömu augun, sama sakleysislega andlitið. Myndin var óskýr, en þetta gat alveg verið hann.

„Hver er tilgangur lífsins ef börnin manns hafa dáið?“ spurði hún sjálfa sig. „Það eina sem þau vildu var öryggi og nú eru þau dáin af því að ég sagði að Danmörk væri öruggur staður.“

Tíu dögum seinna fékk Manal skilaboð á Facebook. Þau voru stutt og frá ókunnugum, en þó dýrmætustu skilaboð sem móðir getur fengið. Þau voru einfaldlega: „Börnin þín eru á lífi. Þau eru í Tyrklandi.“

Þrátt fyrir að Manal óttaðist um öryggi þeirra reyndu börnin aftur að fara sjóleiðina og tókst loks að komast til eyjarinnar Lesbos í Grikklandi.

Ferðalagið í gegnum Evrópu tók þau næstum mánuð, þar til þau komu loks til móður sinnar í Danmörku í nóvember 2015. Þá höfðu þau verið aðskilin í meira en ár.

Í dag eru Manal og börnin hennar saman og örugg í Danmörku, en minningarnar ásækja þau ennþá. „Enginn ætti að þurfa að fara yfir haf og hætta lífi sínu til að vera með fjölskyldu sinni,“ segir Manal. „Enginn.“

Manal með börnunum sínum þremur, Karam 8, Joudy 13 og Sarah 18. © UNHCR/Johan Bävman

Manal með börnunum sínum þremur, Karam 8, Joudy 13 og Sarah 18. © UNHCR/Johan Bävman

 

Hafsjór sorgar, hafsjór vonar, er heimildamynd um Manal og baráttu hennar fyrir því að bjarga börnunum sínum frá stríðinu í Sýrlandi. Hún veitir innsýn íveruleika þúsunda fjölskyldna fjóttamanna sem skiljast að vegna átaka, landamæra og síharðnandi laga í Evrópu og annars staðar; laga sem þvinga marga til að hætta lífi sínu á hættulegum smyglleiðum.

Sjáðu sýnishorn hér að neðan:

Frekari upplýsingar um Hafsjór sorgar, hafsjór vonar er að finna á heimasíðu myndarinnar: www.seaofsorrowseaofhope.com