Neyðarástand

Í neyð þurfum við að hugsa hratt og bregðast tafarlaust við. Hvort sem átök hafa valdið því að fólk flýr heimili sín eða stjórnmálaórói hefur hrakið almenning á vergang á einni nóttu kemur Flóttamannastofnun SÞ til hjálpar.

Hjálparlið okkar og sérfræðingar eru reiðubúin að fara á vettvang um víða veröld. Við getum hafið neyðaraðgerð á innan við þremur sólarhringum, þökk sé þéttriðnu neti birgja, sérfræðiskrifstofa og samstarfsaðila um veröld víða.

Til að viðhalda þessari getu höfum við þróað reglulegar þjálfunaráætlanir. Meðal þeirra eru námskeið í neyðarstjórnun, sem býr alla sjálfboðaliða á neyðarviðbragðslista okkar fyrir hvers kyns yfirvofandi hættuástand í mannúðarmálum. Þetta vikulanga námskeið er haldið þrisvar til fjórum sinnum á ári fyrir allt að 40 manns. Fjallað er um teymisvinnu, skipulagningu aðgerða, samskipta- og samningatækni, öryggi og fleira.

Svæðisskrifstofa Flóttamannastofnunar SÞ fyrir neyðarviðbúnað í Bangkok stuðlar einnig að bættum neyðarviðbúnaði og viðbragðsgetu á Asíu- og Kyrrahafssvæðinu með markvissri þjálfun og öðrum ráðstöfunum sem auka getu. Auk þess tökum við þátt í sameiginlegum framtaksverkefnum með öðrum stofnunum til styrkingar á snemmbúnum viðvörunum og viðbúnaði.