Við tökumst nú á við mestu nauðungarflutninga sem hafa átt sér stað í heiminum. Aldrei hafa fleiri þurft að flýja heimili sín á heimsvísu, eða 65,3 milljónir manna. Á meðal þeirra eru nærri 21,3 milljón flóttamanna og er um helmingur þeirra undir átján ára aldri. Einnig eru um tíu milljónir ríkisfangslausra einstaklinga sem neitað hefur verið um þegnrétt og aðgang að almennum réttindum eins og menntun, heilsugæslu, vinnu og ferðafrelsi. Í heimi þar sem nálægt 34 þúsund manns þurfa að flýja heimili sín á hverjum degi vegna átaka eða ofsókna er starf okkar hjá Flóttamannhjálpinni mikilvægara en nokkru sinni fyrr.
Hvernig öflum við gagna
Hjá Upplýsinga- og samræmingadeild eru tölfræðingar í fullu starfi sem fylgist með þeim fjölda fólks sem neyðist til að flýja þegar neyð brýst út, svo að við getum áætlað hversu mörgum þurfi að hjálpa, hversu mikla hjálp fólk þurfi og hversu mikið af starfsfólki þurfi til að inna starfið af hendi. Þessar tölur birtast á hverju ári í Global Trends (🇬🇧)- og Global Appeal (🇬🇧)-skýrslunum.
Starfsfólkið okkar
Starfsfólkið okkar er meginstoð Flóttamannahjálparinnar. Í lok árs 2015 voru um 9700 manns í vinnu hjá okkur. Um 89% starfsfólksins er staðsett á vettvangi. Við vinnum í 126 löndum, með starfsfólk á svæðisbundnum skrifstofum og í útibúum. Starfsfólk okkar leggur hart að sér við að hjálpa nauðstöddum með sérfræðiþekkingu á ýmis konar sviðum, þar á meðal lögfræðilegri aðstoð, stjórnsýslu, samfélagsþjónustu, opinberum málum og heilsu.
Fjármál
Flóttamannahjálpin er eingöngu fjármögnuð með frjálsum framlögum eða 86% frá ríkistjórnum og Evrópusambandinu. Sex prósent koma frá öðrum milliríkjasamtökum og öðrum sameiginlegum sjóðum, á meðan hin sex prósentin koma frá einkageiranum, þar á meðal sjóðum, samtökum og frá almenningi. Auk þess fáum við niðurgreiðslu (tvö prósent) frá Sameinuðu þjóðunum fyrir stjórnsýslu og þiggjum framlög í fríðu, eins og tjöld, lyf og vörubíla. Flóttamannahjálpin var stofnuð 1950 með naumum fjárhag að upphæð 300,000 bandaríkjadala. Eftir því sem umfang starfsins óx hefur kostnaður einnig aukist. Árleg fjárlög voru um einn milljarður bandaríkjadala í upphafi tíunda áratugarins og 2013 var hann um 5,3 milljarðar. Árleg fjárlög telja áætlanir sem styðja áframhaldandi aðgerðir og viðbótaráætlanir til þess að halda utan um neyðartilfelli eins og í Sýrlandi og umfangsmikla nauðungarflutninga. Uppfærðar upplýsingar um fjáröflun Flóttamannahjálparinnar má nálgast á Global Focus-vefsíðunni(🇬🇧).
Tölfræði og gögn um aðgerðir
Nákvæm, mikilvæg og tímabær gögn og tölfræði ráða úrslitum í flóttamannaaðgerðum. Þær upplýsingar eru notaðar af öllum samstarfsfélögum okkar til þess að bregðast við þörfum flóttamanna. Tölfræðigagnabanki Flóttamannahjálparinnar(🇬🇧) inniheldur gögn, skýrslur og aðrar upplýsingar sem eru ómissandi á vettvangi. Þar er einnig að finna tölfræðiskýrslur um hópa sem málið varða – flóttamenn (🇬🇧), hælisleitendur (🇬🇧), heimkomna flóttamenn (🇬🇧), nauðungarflutta (🇬🇧) og ríkisfangslausa (🇬🇧). Nákvæmar upplýsingar eru tiltækar um hælislönd, uppruna, kyn, aldur, staðsetningu og lagalega stöðu og stöðugt er lagt mat á gæði aðgerða Flóttamannahjálparinnar og verndarinnar sem hún veitir. Vinsamlegast skoðið Tölfræðiárbækur, hálfsársstefnur (🇬🇧) og hælisstefnur (🇬🇧) fyrir nánari upplýsingar.