Nemar hjálpa ungu fólki á flótta að mennta sig í Danmörku
Hópur háskólanema í Kaupmannahöfn stendur að verkefninu „Student Refugees“ til að hjálpa ungu fólki á flótta að sækja sér æðri menntun. Þau ráðleggja þeim varðandi möguleika á inngöngu, umsóknarferlið og kerfið í heild sinni og veita einnig dýrmætan stuðning.
© UNHCR/Max-Michel Kolijn
Þegar hinn 24 ára gamli Ali kom til Danmerkur fyrir tveimur árum sem flóttamaður frá Sýrlandi var hann alveg viss um að hann vildi halda áfram námi. Hann komst fljótt að því að danskt menntakerfi væri gjörólíkt því sem hann þekkti í heimalandi sínu.
Jafnvel þótt félagsráðgjafar á vegum hins opinbera hafi fullvissað hann um það að hann gæti hafið nám í Danmörku var ljóst að ferlið yrði alls ekki auðvelt.
„Þetta er draumurinn minn en því miður rakst ég á mikið af áskorunum og erfiðleikum. Mér leið eins og ég væri fastur, eins og ég gæti ekki tekið næsta skref,“ segir Ali.
Þetta breyttist þegar vinur hans sagði honum frá samtökum sem kallast „Student Refugees“, hópi sjálfboðaliða úr röðum háskólanema sem tóku höndum saman til að hjálpa ungu fólki á flótta að sækja sér æðri menntun.
Þau aðstoða fólk á flótta við að skilja danska kerfið, sigrast á tungumálahindrunum og auka möguleika sína. Þau ráðleggja þeim varðandi tækifæri sem eru í boði, námskeið til að bæta við þekkingu og umsóknarferlið sjálft. Þau veita einnig dýrmætan stuðning og hvatningu, sem er ekki síður mikilvægt.
„Við höfum séð töluvert af því að fólki á flótta sé beint í átt að ófaglærðum láglaunastörfum og ég tel það ekki vera bestu leiðina fyrir þau að aðlagast, því að þá endar fólk sem lærði að vera læknar og prófessorar á að aka leigubílum og skúra gólf,“ útskýrir Alba Ortega sem stofnaði samtökin.
Með fjárhagslegum stuðningi frá evrópskum og dönskum stofnunum var „Student Refugees“ formlega stofnað haustið 2017. Eftir að hafa starfað í aðeins sex mánuði hafa þau unnið með fleiri en 70 flóttamönnum, sem hafa bakgrunn í hagfræði, efnafræði, lögfræði, verkfræði og fleiri greinum. Hópurinn heldur bara áfram að stækka því samtökin halda reglulega opin „kaffihúsakvöld“ þar sem fólk á flótta getur mætt, fengið aðstoð og stuðning og komist í samband við ráðgjafa frá „Student Refugees“.
„Við vildum gefa fólki tækifæri til að halda áfram að gera það sem það var byrjað á í heimalöndum sínum,“ segir stofnandinn Alba Ortega, sem hefur verið boðið að segja frá reynslunni af verkefninu á nokkrum evrópskum ráðstefnum um aðlögun, ásamt öðrum sjálfboðaliðum.
Sara er einn af ráðgjöfum „Student Refugees“. Hún er danskur læknir sem gekk til liðs við samtökin til að sporna gegn neikvæðri opinberri umfjöllun í Danmörku.
„Það er stöðugt verið að tala á neikvæðan hátt um flóttafólk sem byrði en ég er ekki sammála því og vildi leggja mitt af mörkum til að gefa aðra mynd af heimalandi mínu. Kannski er það bara dropi í hafið, en ég tek fagnandi á móti fólki á flótta og vil hjálpa því,“ segir hún.
Hinn 24 ára gamall Ali, sem var að læra þýðingar úr frönsku í Sýrlandi áður en hann þurfti að flýja með móður sinni og systur, hefur nú sent inn umsókn um að hefja nám í mannfræði við Háskólann í Hróarskeldu á næstu haustönn. Þetta hefði hann ekki getað án þess að fá gögn frá sýrlenska háskólanum sínum og fá fyrri menntun sína metna af ráðuneyti menntamála og rannsókna í Danmörku, sem hann náði fyrir tilstilli ráðgjafar og stuðnings frá sjálfboðaliðunum.
Nú bíður hann bara eftir því að komast að því í sumar hvort hann fái inngöngu eða ekki, eins og svo margt ungt fólk á flótta sem hefur fengið stuðning frá „Student Refugees“ við að sækja um í danska háskóla.
Í það minnsta gaf stuðningurinn og aðstoðin frá „Student Refugees“ Ali aukna von og meira sjálfstraust:
„Þau hjálpuðu mér að fá nýja sýn. Mér leið vel með þeim því þau vita miklu meira en ég um danska kerfið. Þau létu mér líða eins og ég gæti þetta. Að það væri ekki ómögulegt,“ segir hann.