Solaf hefur yndi af íþróttum og dreymir um að búa í Bandaríkjunum

Solaf og fjölskylda hennar flúðu styrjöldina í Sýrlandi

Solaf, 9: „Ég heiti Solaf og ég er frá Bosra í Sýrlandi. Ég man eftir húsinu sem ég átti heima í þar. Það var stórt hús með brúnni hurð. Það var garður fyrir utan húsið með ólífutrjám, sítrónutrjám, appelsínutrjám og eplatrjám. Við settum niður basilíku, timjan, kamillu, steinselju, eggaldin og kartöflur. Það lenti flugskeyti á þakinu okkar og við urðum að fara út og gista í moskunni en svo var moskan líka sprengd og eftir það fórum við til Jórdaníu.

„Mér finnst ekkert mjög gott að vera hér í búðunum. Það er ekkert rafmagn. Á kvöldin notum við sólarhleðslulampa en þeir endast bara í hálftíma. Ef við hefðum rafmagn myndi ég vilja geta horft á sjónvarpið … eða nei, annars, í fartölvu! Mig langar að horfa á sjónvarpið í fartölvu. Þegar ég er ekki í skólanum er ég að leika við vini mína eða í íþróttum. Ég er að læra Taekwondo svo ég geti varið mig þegar bróðir minn er ekki með mér. Ég get næstum því farið í splitt, ég þarf bara að æfa mig aðeins meira.

„Mig langar að fara til Bandaríkjanna. Einn úr fjölskyldunni minni fór einu sinni þangað og sagði mér að þar væri lífið eðlilegt – með stórum matvörubúðum og góðum skólum. Þar gæti ég klárað prófin mín og fengið góðar einkunnir. Mig langar að verða læknir og hjálpa fólki með sykursýki. Hvers vegna? Vegna þess að mamma mín er með sykursýki. Mig langar að hjálpa fjölskyldunni minni því ég á bara þau að.“

Jordan. Nine-year-old Syrian refugee, Solaf, with her brother Munaf, 21, at Azraq refugee camp

Munaf, 21 árs, heldur á systur sinni Solaf, 9 ára, sem sýnir færni sína í taekwondo í Azrag-flóttamannabúðunum í Jórdaníu.

Jordan. Nine-year-old Syrian refugee, Solaf, with her father Ahmad, 49, her mother Ruwaidah, 44 and brother Munaf, 21, at Azraq refugee camp

Sýrlenska flóttastúlkan Solaf sýnir spennt púsluspilið sem hún kláraði í Azrag-flóttamannabúðunum. Faðir hennar Ahmad, 49 ára, og móðirin Ruwaidah, 44 ára, ákváðu að flýja Sýrland ásamt börnunum sínum árið 2013.

Jordan. Nine-year-old Syrian refugee, Solaf, with her mother Ruwaidah, 44, at Azraq refugee camp

Ruwaidah, 44 ára, heldur á hinni atorkusömu dóttur sinni Solaf, 9 ára, fyrir framan gáminn þeirra í Azrag-flóttamannabúðunum. „Hún er alltaf á ferðinni, aldrei kyrr á sama stað.“

Jordan. Nine-year-old Syrian refugee, Solaf, draws with coloured pens at the caravan where she lives with her brother and parents at Azraq refugee camp

Solaf, flóttastúlka frá Sýrlandi, teiknar inni í gáminum sem hún deilir með bróður sínum og foreldrum í Azrag-flóttamannabúðunum. Það sem hún saknar mest frá Sýrlandi er afi hennar.

Jordan. Nine-year-old Syrian refugee, Solaf, with her father Ahmad on their way to their caravan at Azraq refugee camp

Solaf á leið heim úr prjónakennslu hjá Finn Church Aid með föður sinum Ahmad, 49 ára. Hún nýtur formlegrar og óformlegrar menntunar í Azrag-flóttamannabúðunum.

Solaf, níu ára, er sýrlenskur flóttamaður sem býr með foreldrum sínum og stóra bróður í Azraq-flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Hún og fjölskylda hennar eru upprunalega frá bænum Bosra í suðurhluta Sýrlands en neyddust til að flýja til Jórdaníu árið 2013, eftir að húsið þeirra eyðilagðist að hluta í flugskeytaárás. Solaf man mjög vel eftir stríðinu í Sýrlandi. „Ég man þegar flugskeyti lenti á grafreitnum í bænum okkar og það kom lík upp úr jörðinni, af einhverjum kalli sem hét Mousa.“

Þrátt fyrir allt sem Solaf hefur mátt þola er hún glöð og spræk stúlka sem elskar að vera í íþróttaleikjum með vinum sínum í búðunum og púsla inni í afdrepi fjölskyldunnar. Henni finnst gaman að hjálpa mömmu sinni að elda og getur romsað upp úr sér uppskriftinni að uppáhaldsmatnum sínum, „Shish Barak“, en það eru lambakjötsbollur, eldaðar í jógúrtsósu.

Átökin í Sýrlandi hafa staðið yfir í rúm fimm ár, og hafa leitt til alvarlegasta flóttamannavanda veraldar, þar sem yfir 4,8 milljónir Sýrlendinga hafa flúið til Jórdaníu og annarra nálægra landa í þessum heimshluta.

Sýndu þína samstöðu með flóttamönnum #WithRefugees Skrifaðu undir áskorunina – Skrifaðu undir í dag


Fylgjast með – Fylgdu okkur á:

Right Petition Text – IS

Sýndu þína samstöðu með flóttamönnum #WithRefugees

Skrifaðu undir áskorunina

Skrifaðu undir í dag