Hana dreymir um að búa barnabörnunum sínum bjartari framtíð.
Baw Meh flúði ofbeldi í Mjanmar.
Baw Meh, 78: „Ég giftist kornung. Foreldrar mínir komu því í kring. Við fengum ekki að hittast fyrr en í brúðkaupinu. Hann sagði við mig: Þú ert mjög grönn. Og ég sagði: Þú ert myndarlegur og karlmannlegur. Og svo hlógum við bæði, en eftir þessi fyrstu orðaskipti vorum við of feimin við hvort annað til að ganga hlið við hlið. Við áttum bæði góð ár og erfiðari tíma. Þegar átökin breiddust út til þorpsins okkar neyddumst við til að flytja. Hermennirnir brenndu allt til grunna og við misstum allar eigur okkar. Við vorum í hópi fjölda annarra sem þurfti að ferðast yfir fjöll og ár. Við höfðum með okkur körfu undir pottinn okkar, exina, kolin og 30 bolla af hrísgrjónum. Ég tók börnin í fangið og hljóp af stað. Á hlaupunum uxu börnin úr grasi og þau urðu fullorðin í búðunum í Taílandi.”
“Rétt eftir að ég fæddi yngstu dóttur okkar neyddumst við til að flýja aftur. Ég vildi að hún færi í skóla þegar hún var lítil og fengi einhverja menntun, en það var ekki hægt. Nú bý ég hjá henni og dóttursonum mínum, sem sækja skóla í búðunum. Það gerir mig mjög glaða. Ég vona að þeir haldi áfram að læra því ég vil að þeir fái menntun. Ég vil að þeir verði eins og þið (hér á hún við starfsfólk Flóttamannastofnunar SÞ).
Ég hélt að við myndum fljótlega geta snúið aftur í þorpið okkar. En það gátum við ekki. Við höfum dvalið í þessum búðum í um það bil 20 ár.“
Baw Meh hefur gaman af því að syngja hefðbundna Karenni-söngva á meðan hún eldar kvöldmatinn fyrir fjölskylduna. Hún hefur líka ánægju af að tala um eiginmann sinn, sem lést í fyrra, áður en honum gafst færi á að láta drauminn um að snúa heim aftur rætast. Mörg barnanna hennar og barnabarnanna hafa flutt enn lengra, til enn annarra landa. Einn ömmustrákanna hennar sagði við hana þegar þau kvöddust: „Ég skal sjá fyrir þér frá Ameríku og einn daginn kem ég aftur til að heimsækja þig!“ Baw Meh tekur ekki í mál að fara. Hún kýs að vera nálægt manni sínum, sem er grafinn í vesturhluta búðanna, þar sem sá hluti liggur nær þorpinu þeirra í Mjanmar. Þorpið er rétt handan við landamærin, rétt utan seilingar.
Baw Meh, sem nú er 77 ára, flúði Kayah-ríki í Mjanmar árið 1996. Átján árum síðar búa þrjár kynslóðir Karenni-fólks í fjölskyldu hennar enn í Ban Mai Nai Soi-flóttamannabúðunum í Norður-Taílandi. Karenni-flóttamenn frá Mjanmar sem dvelja í Taílandi eru meðal þeirra hópa sem hafa verið lengst allra í heiminum með stöðu flóttamanna.
Sýndu þína samstöðu með flóttamönnum #WithRefugees Skrifaðu undir áskorunina – Skrifaðu undir í dag
Fylgjast með – Fylgdu okkur á:
More stories
Mojtaba var 13 ára þegar hann flýði undan Talíbönum.
Draumur hans er að finna lækningu við krabbameini.
Solaf og fjölskylda hennar flúðu styrjöldina í Sýrlandi
Solaf hefur yndi af íþróttum og dreymir um að búa í Bandaríkjunum
Carmen flúði átök í Kólumbíu ásamt dóttur sinni.
Carmen vonast til þess að starf hennar verði öðrum konum hvatning.